Leikskólataskan

Mikilvægt er að klæðnaður barnanna sé þægilegur þannig að hann hefti ekki leikgleði þeirra. Klæðið börnin eftir veðri en hafið það ætíð hugfast að börn hreyfa sig mikið við leik úti og geta því svitnað ef þau eru mikið klædd. Nauðsynlegt er að barnið hafi með sér aukafatnað og mikilvægt er að merkja fatnaðinn. Í leikskólanum vinnum við með ýmis efni s.s. lím og málningu sem geta farið í föt barnanna þó svo starfsfólk leiti allra leiða til að svo verði ekki. Vinsamlegast takið tillit til þess og klæðið börnin við hæfi. Föt barnanna eru ekki tryggð.

Öll börn sem nota bleiu koma með sínar eigin bleiur. Best er að koma með einn pakka. Við bendum líka á að gott er að hafa alltaf 2 bleiur í töskunni ef pakkinn skildi klárast þann daginn. Gott er að hafa auka snuð í töskunni fyrir þau börn sem nota snuð.

Þau börn sem eru að hætta eða eru nýhætt með bleiu þurfa að hafa með sér meira af nærfatnaði og buxum

Hér á eftir fylgir listi yfir allt það sem barnið þarf á að halda í töskunni sinni.

Töskuna á að yfirfara á hverjum degi.

Tæma þarf hólfið á föstudögum og taka töskuna með heim

Föt til skiptana – þarf alltaf að hafa með

 • Tvenn nærföt
 • Tvenna sokka/sokkabuxur
 • Einar buxur
 • Einn síðerma bol/peysu
 • Föt fyrir útiveruna – þarf alltaf að hafa með
 • Hlýja peysu
 • Hlýja sokka
 • Tvenna vettlinga
 • Húfu

Regnföt

 • Regnfatnað (pollabuxur & pollajakki)
 • Gúmmístígvél

Vetrarföt

 • Kuldagalli
 • Hlýja húfu
 • Lúffur eða ullarvettlinga
 • Kuldaskó

Allur fatnaður barnsins þarf að vera vel merktur barninu sjálfu, með fullu nafni en ekki merkt systkinum þess eða fyrri eiganda. Í leikskólann koma margir með eins fatnað og margir kennarar sjá um barnið. Þess vegna er mikilvægt að merkja. Merktur fatnaður ratar frekar í rétt hólf. Foreldrar eru beðnir um að koma með eina ljósmynd af barninu sem sett verður í hólf barnsins.