Fundargerðir foreldrafélagsins
15.05.2006
Rætt var um umræður á netinu sem geta komið slæmu orði á leikskólann og aðra.
Ógreiddir seðlar virðast enn flækjast fyrir í heimabönkum þegar greiða á nýja seðla. Athuga á málið aftur.
Ljósmyndari ætlaði að koma á fimmtudaginn en því var frestað vegna útskriftarferðar skólahóps sama dag. Sissa kemur fyrri hluta í næstu viku. Myndirnar verða svarthvítar. Hengja þarf upp auglýsingu, stjórn foreldrafélagsins ætlar að aðstoða Sissu við myndatökuna. Einnig þarf að ákveða dag og fyrirkomulag við afhendingu myndanna þegar þær koma til okkar. Staðgreiða þarf myndirnar og líklega verður ákveðinn dagur þar sem við í stjórninni verðum í leikskólanum á heimferðatíma barnanna. Ítreka þarf við foreldra að vera með rétta upphæð tilbúna ef þeir skyldu vilja kaupa myndirnar við skoðun.
Talað var um kynningu á nýju starfsfólki og því sem flakkar á milli deilda. Hugmynd kom upp um að hafa myndir af þeim eins og af börnunum svo foreldrar geti séð nöfn þeirra sem eru á deildinni þann daginn. Myndirnar væri þá hægt að færa til eftir þörfum.
Söngbækur - einhverjir vilja fara að fá eitthvað nýtt í þær. Hugmynd kom upp um að senda foreldrum textana í netpósti eða að þeir fengju allar síðurnar í einu.
Ánægja var með sundferð foreldrafélagsins og mæting var góð. Vilji er fyrir því að standa fyrir fleiri uppákomum í þessum dúr, t.d. leikferð á Víðistaðatún, grillferð í Heiðmörk, fjöruferð, fjölskylduferð að Hvaleyrarvatni, sundferðum og fl. Gott fyrir foreldra að hittast með börnin og kynnast öðrum foreldrum og vinum barnanna. Hentugur tími væri t.d. kl 10 á sunnudagsmorgnum svo fólk hefði þá daginn til að gera annað. Ákveðið að standa fyrir heimsókn á Víðistaðatún næsta sunnudag, 21. maí. Sett verður upp auglýsing á fimmtudaginn.
Hugmynd kom um að standa fyrir danskennslu fyrir börnin næsta vetur. Ágætt að skoða möguleikana sem eru í boði og hvernig best væri að haga því.
20.03.2006
Rætt um fyrirlestur sem starfsmenn á Álfasteini fóru á sem heitir "Skapmikil börn".
Greiðsluseðlar verða sendir út mánaðarmótin mars-apríl og fréttabréfið á svipuðum tíma eða í samfloti. Það sem kemur fram í fréttabréfi er:
- myndataka / útimyndataka - Sissa tekur myndirnar
- sumarhátíð / Brúðubíll / fáni
- Sigga og skessan í nóvember og jólasveinn í desember
- Húgó, fyrirlesturinn
- sundferð sunnudaginn 2. apríl
- fyrirlestur á vegum Heimilis og skóla sem stjórn foreldrafélagsins fór á.
Fánarnir kosta 8.000 stk en við fáum tvo á 14.000 +vsk. Ákveðið að kaupa bara einn í bili og sjá hvernig hann endist.
Vesti fyrir börnin, ekki til peningur fyrir þeim sem stendur. Hugmynd kom um að tala við KB banka eða annan banka og athuga hvort þeir vilji veita okkur styrk án þess að fá logo frá þeim á vestin. Við gætum auglýst það í fréttablaði leikskólans, Víkurfréttum og jafnvel víðar. Kaupa þarf vestin fyrir haustið.
Félagsgjöld í foreldrafélag eru lægst á Álfasteini af öllum leikskólum í Hafnarfirði eða 1500 kr tvisvar á ári. Í öðrum leikskólum í bænum er gjaldið 1800-2500 tvisvar á ári. Ákveðið að hækka gjaldið í haust og kynna hækkun á foreldrafundi þá. Mikilvægt að það komi fram á fundi með foreldrum og í fréttablaði í hvað peningarnir fara.
Rætt var um að að gerast aðili í Heimili og skóla, það kostar 10.000 á ári. Við inngöngu fengi foreldrafélagið afhenta góða möppu með handhægu efni um foreldrafélög.
Tillaga kom um að standa fyrir sundtíma, hestbaki eða einhverju öðru fyrir börnin þar sem ákveðinn væri tími og miði settur í hólf barnanna þar sem fram kæmi staður og stund. Þetta er eitthvað sem gæti farið fram um helgar og hvert foreldri borgaði fyrir sig og sitt barn.
Ákveðið að hittast aftur áður en ljósmyndarinn kemur í maí.
15.02.2006
Búið að athuga verð hjá nokkrum ljósmyndurum. Líklega verða teknar einstaklingsmyndir af hverju barni og hópmyndir af deildunum. Síðast voru teknar myndir af öllum börnunum og foreldrar gátu svo ákveðið hvort þeir vildu kaupa myndirnar, þá voru þrennir foreldrar sem ekki keyptu myndirnar.
Ákveðið að láta taka myndirnar í maí þegar vel viðrar til útimyndatöku.
Skoðað var sýnishorn af fána fyrir leikskólann en hann kostar 8.000. Ákveðið að panta appelsínugulan fána með svörtum stöfum. Panta þarf fána hjá silkiprent.
Verð komið fyrir Brúðubílinn á sumarhátíð, það kostar 40.000 að fá hann. Samþykkt að panta hann þegar dagssetning verður komin á sumarhátíðina.
Húgó - fyrirlestur. Ekki nógu góð mæting frá Álfasteini, fleiri mættu frá Hörðuvöllum. Fyrirlesturinn var mjög góður og vilji er fyrir að vera e.t.v. í meira samstarfi við foreldrafélagið á Hörðuvöllum.
Staðan á reikningnum er ca 25.000 þegar búið er að greiða fyrir Húgó.
Fundur 19.01.2006
Fyrirhugað er að standa að fyrirlestri í samstarfi við foreldrafélagið á Hörðuvöllum 7. febrúar. Fyrirlesari verður Húgó barnasálfræðingur og kostnaði verður deilt á milli félaganna. Það er þá 25.000 á hvort félag og fyrirlesturinn verður haldinn í sal í leikskólanum Hörðuvöllum. Auglýst verður þegar nær dregur.
Ánægja var með leikfangasöfnun á Álfasteini fyrir jólin og er vilji til að endurtaka þetta að ári, hugsanlega með lengri fyrirvara.
Talað var um að taka upp umræðu á næsta foreldrafundi um heimasíðu leikskólans, fá hugmyndir og athugasemdir frá foreldrunum.
Ekki er búið að kaupa endurskinsvestin sem ákveðið var að kaupa. Ákveðið að skoða fjárhagsstöðuna í vor því enn vantar ca 15-20 vesti.
Stefnt er að því að fá ljósmyndara til að taka myndir af börnunum í vor. Áhugi er fyrir útimyndatöku og ákveðið var að leita eftir tilboðum frá nokkrum ljósmyndurum og sjá hvað kæmi hagstæðast út. Fyrirkomulag ákveðið síðar. Ljósmyndarinn sjálfur kostar ekkert en foreldrar greiða fyrir myndir af börnunum.
Talað var um að gefa leikskólanum sumargjöf, fána með Álfasteinsmerkinu.
Nú er búið að breyta fyrimælunum í bankanum svo að gamlir, ógreiddir seðlar koma ekki upp þegar greiða á nýjan seðil. Borist höfðu kvartanir yfir því að upp kæmi að eldri seðill væri ógreiddur og ekki væri hægt að borga nýja seðilinn. Nú er búið að laga þetta.
Ekki verður farið í sveitaferð í ár þar sem það er 2. hvert ár. Talað var um að gera eitthvað á sumarhátíð leikskólans og jafnvel fá skemmtikraft þangað, síðast komu Mikki refur og Lilli klifurmús. Hugmyndir komu um t.d. Birtu og Bárð, Sigga sæta, Benedikt búálf, töframenn, trúða, götuleikhús eða jafnvel hesta. Ekkert ákveðið í þeim efnum, þarf að skoða verð og hverjir taka svona heimsóknir að sér.
Fundur foreldrafélagsins Alvarar, haldinn 3. 10.´05. Rætt um hugmyndir fyrir næsta vetur.
Á næstunni;
Foreldrafélagið hvetur alla foreldra til að sýna samstöðu og greiða í félagið svo að við getum haldið áfram að taka þátt í starfi barnanna okkar í leikskólanum. |