Blað umForystuskólann Álfasteingefið út maí 2010

Blað sem gefið var í alla leik- og grunnskóla og ber heitið Einingakubbar til náms og þroska


Kynning á forystuskólaverkefni

Einingakubbar til náms og þroska

Linkur á powerpoint kubbafyrirlestur

Haust 2008 linkur á myndasýningu

-------------------------

Einingakubbar til náms og þroska

Með þátttöku í forystuskólaverkefninu er ætlunin að bæta faglegt og metnaðarfullt starf. Við ætlum að skoða starfið út frá rannsóknaspurningunni: Hvernig má nýta hugmyndafræði John Dewey's með áherslu á kubba Caroline Pratt?

Við teljum að með því að verða virkari í gerð skráninga verði kennari meðvitaðri um eigið starf og þau áhrif sem hann hefur á barnahópinn. Með skráningunni getur kennari fléttað saman fræði og starf. Hún opnar leið til að breyta og þróa leikskólastarfið, leggja grunn að þróun, símenntun og mati.

Þegar við skilgreinum orðið starfsþróun er átt við skilvirkni og þróun á starfi sem felur í sér skipulagða endurmenntun kennara til að styrkja og þróa starfið í skólanum.

Skipulögð vinna með kubba Caroline Pratt hefur verið í skólanum frá upphafi og eru kubbarnir helsti efniviðurinn í leik barnanna. Leikskólastjórinn hefur haldið utanum fræðsluna og efniviðinn og miðlað af þekkingu sinni. Hún hefur haldið námskeið fyrir kennara skólans sem og kennara annarra leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar, ásamt ferðum út á landsbyggðina með fyrirlestra um það starf sem unnið er á Álfasteini.

Að efla starfið með kubbana og tengja það heimspekilegri hugsun og umræðu í anda framfarastefnu John Dewey's, teljum við skila nemendum okkar aukinni færni í ígrundaðri og gagnrýnni hugsun. Dewey taldi að kennari gæti kennt barninu að nota ígrundaða hugsun. Hann sagði að hugsanir væru eins og skoðanir, við nálgumst þær á einn eða annan veg. Því er mikilvægt að kennarar séu meðvitaðir um áhrif sín á líf barna og beiti því opnum spurningum og spurningum sem leiða til menntandi áhrifa (uppgötvana).

Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla er leikurinn lífstjáning hvers barns og mikilvægasta náms- og þroskaleið þess. Reynsla barns endurspeglast í leiknum og til þess að barn geti þroskast og leikurinn þróast verður barnið að fá upplifun, efnivið og tækifæri til að þróa ímyndunarafl sitt. Allt þetta lagði Dewey áherslu á. Hann sagði að fyrir börnin er veröldin ný og þeim finnst heimurinn vera spennandi og þau sækjast eftir upplifunum, þau sækjast eftir upplifunum í stað aðgerðarleysis. Þetta verða kennarar að nýta sér og nota eðlislæga forvitni barns og rannsóknarlöngun þess. Hann taldi að forvitni væri grundavallarþáttur í víkkun reynslunnar og þess vegna væru hún það frjókorn sem á eftir að verða að ígrundaðri hugsun.

Náttúra og umhverfi er eitt af námssviðum leikskólans. Því er lögð áhersla á að fara í vettvangsferðir og kynna fyrir börnunum umhverfið, þannig öðlast þau fjölbreytta þekkingu og reynslu sem þau yfirfæra í kubbaleik sinn. Jafnframt nýta börnin sér tónlistina í kubbunum til að slá takt, söngla og syngja við gerð bygginga sinna. Myndsköpun í einingarkubbum kemur fram í mynstri þar sem barnið leikur sér með form kubbanna til mynsturgerðar og jafnframt getur barnið skreytt byggingar sínar með ákveðnu viðbótarefni sem til er. Blöð og blýantar eru nýtt til að merkja byggingar, teikna eða skreyta með öðrum hætti.

Einingakubbarnir veita mikla hreyfingu, þeir þjálfa bæði gróf og fínhreyfingar ásamt því að gefa börnum mikla rýmisvitund.

Holukubbar Caroline Pratt voru hannaðir til að veita börnum yfirgripsmikla þjálfun á efri hluta líkamans. Þessar æfingar juku líkamsstyrk þeirra, kraft og samhæfingu. Kubbarnir eru tilvaldir til þess að víkka út reynslu og vekja upp forvitni barna.

Ákveðið var að taka inn nýja kennsluaðferð, könnunaraðferð (The Project Approach) sem viðbót við það sem fyrir var. Með þeirri aðferð má auðga námsferli barnsins enn frekar. Í könnunaraðferðinni (The Project Approach) er efnið ákveðið af börnunum og kennaranum og markmið námskrárinnar eru höfð í huga. Áhugi barnanna er í fyrirrúmi. Kennarinn fylgist með áhugasviði barnanna og út frá því er næsta skref ákveðið. Útbúinn er vefur um það sem börnin vita um viðfangsefnið og ákveðnar eru leiðir til að efla vitneskju barnanna en frekar. Kennarinn aðstoðar börnin í þekkingarleitinni t.d. með umræðum. Einnig öðlast börnin þekkingu með því að spyrja og rannsaka. Þekkingin kemur frá börnunum sjálfum, kennaranum, sérfræðingi sem heimsækir hópinn eða með vettvangsferðum. Vettvangsferðir eru sérstaklega mikilvægar í könnunaraðferðinni. Hægt er að fara í nokkrar og eru þær í byrjun verkefnisins. Verkefnið getur fallið undir mörg svið námskrárinnar og fléttast inn í allt starf leikskólans. Framsetningin hvetur börnin til að sjá heildarhugmyndina og hvað þau eru að læra. Athafnir eru endurteknar nokkrum sinnum á meðan á ferlinu stendur til að skoða þróun og aukna þekkingu barnanna.

Helstu áhersluþættir á fyrsta skólaári eru:

Hugmyndafræði kubba Caroline Pratt

                    • Hvernig getum við unnið með kubbana?
                    • Hvaða námsþætti snerta kubbarnir?

Hugmyndafræði John Dewey's

                    • Hvernig vinnum við með aðferðir John Dewey's?

Hlutverk kennarans

                    • Hvernig leggur kennarinn inn kubbana?
                    • Hvernig hvetur kennarinn börnin til lausnaleitar?
                    • Hvernig eru samskipti kennara og barna?

Könnunaraðferðin

                    • Hvernig tengist könnunaraðferðin hugmyndafræði John Dewey´s og Caroline Pratt?

Námsþættir skólanámskrár Álfasteins

                    • Hreyfing
                    • Málrækt
                    • Myndsköpun
                    • Tónlist
                    • Náttúra og umhverfi
                    • Menning og samfélag
                    • Lífsleikni
                    • Kubbaleikur

Öflun og úrvinnsla gagna

                    • Hvernig gerum við skráningar?
                    • Hvernig vinnum við úr skráningum?

1. ár (samantekt úr spurningu 14):

Uppbygging á eigin skólastarfi.

Lögð er áhersla á hlutverk kennarans í leik og starfi.

Öflunar gagna og úrvinnslu þeirra.

Hugmyndafræði Álfasteins kynnt og unnið verður markvisst með námsþættina, í gegnum leik með kubba Caroline Pratt.

2. ár:

Endurskoðun á fyrsta skólaári og frekari uppbygging á eigin skólastarfi.

Þýðing á kubbabókinni The Block Book ritstýrð af Elisabeth Hirsch

Unnið verður áfram með námsþættina í gegnum leik með kubba Caroline Pratt.

Kennarar undirbúa sig til að fara með námskeið og kynningar í aðra skóla.

3. ár:

Unnið verðu áfram með þýðingu á The Block Book og ef vel tekst til þá verður byrjað á þýðingu á bókinni Experimenting with the World: John Dewey and the Early Childhood Classroom eftir Harriet Cuffaro.

Unnið verður markvisst með námsþættina í gegnum leik með kubba Caroline Pratt.

Kynningar og námskeið fyrir aðra skóla.

4. ár:

Tilraun með stóra holukubba úti.

Unnið verður markvisst með námsþættina í gegnum leik með kubba Caroline Pratt.

Kynningar og fræðsla fyrir aðra skóla

5. ár:

Dýpkun á þekkingu varðandi kubba Caroline Pratt og framfarastefnu

Dewey.

Kynning og fræðsla fyrir aðra skóla.

Lokaskýrsla.