Saga skólans

Upplýsingar um leikskólann og rekstraraðila

Leikskólinn Álfasteinn var opnaður formlega 15. mars 2001 og er rekinn af Hafnarfjarðarbæ. Húsnæði leikskólans er í eigu Nýsis sem sér um allt viðhald og framkvæmdir.

Grunnflötur leikskólans er 699,7 m2, rúmmál hússins er 2.698 m3 en flatarmál lóðar er 5.015m2. Á Álfasteini eru fjórar deildir, Berg, Klettur, Hamar og Holt fyrir börn á aldrinum ca. tveggja til sex ára.

Álfasteinn er staðsettur í nánasta umhverfi við Hvaleyrarskóla. Skólagarðar á vegum Hafnarfjarðarbæjar eru í næsta nágrenni við leikskólann og hefur leikskólinn nýtt sér þá yfir sumartímann.

Hugmyndafræði leikskólans.Þegar Inga Líndal leikskólastjóri var ráðin í desember 2000 var eitt að skilyrðunum fyrir umsókninni að umsækjandi hefði mótað sér skýra stefnu um hvaða hugmyndafræði leikskólinn ætlaði að vinna eftir. Má því segja að Framfararstefna heimspekingsins John Dewey hafi orðið til þess að leikskólastjórinn fékk stöðuna.Í Framfarastefnunni er megináhersla lögð á að kenna börnunum gagnrýna og skapandi hugsun í stað þess að binda hugann við fyrirfram ákveðnar lausnir. Þetta er gert með því að spyrja börnin opinna spurninga og fá þau til að finna eigin lausnir.

Dewey..."Hlutverk kennarans er ekki að svara spurningum
heldur að aðstoða við fæðingu nýrra spurninga."

Lögð er áhersla á frjálsan leik enda er hann talinn vera frumafl í þroska barnsins, í dagskipulagi leikskólans er frjálsa leiknum gefið gott svigrúm.Hlutverk leikskólakennarans er meðal annars að skapa umgjörð um leikinn svo börnin verði virk og skapandi og geti unnið úr reynslu sinni.Í aðalnámskrá leikskóla segir að skipulag og búnaður leikskóla eigi að örva leik barna, frumkvæði þeirra og virkni.Til að svo geti orðið valdi leikskólinn Álfasteinn þá leið að vinna meðal annars með svokallaða einingarkubba sem hannaðir voru af bandaríska uppeldisfrömuðinum Caroline Pratt árið 1914. Þetta eru gegnheilir trékubbar (unit blocks) og einnig stórir, holir trékubbar (hollow blocks). Lögun þeirra og hönnun er þannig úr garði gerð að þeir ganga stærðfræðilega hver upp í annan. Þessi efniviður gefur börnunum gott tækifæri til stærðfræði- og rökhugsunar þar sem þau þurfa að glíma við þrautir og leita úrlausna. Þessir kubbar verða að skrifstofu, þyrlu, heimili og öllu því sem börnunum dettur í hug að skapa í hvert sinn óháð kynhlutverkum og menningu.Fín- og grófhreyfingar styrkjast þegar börnin byggja og einnig félags- og málþroski þar sem þau byggja ýmist ein, samhliða eða saman. Þá þarf að ræða málin, koma sér saman um hugmyndir, hlutverk og verkefni, fá lánað og lána öðrum. Þessi heimspekilega hugsun birtist síðan í æfingum þar sem börnin læra að hugsa sjálfstætt og forvitni þeirra er gerð jákvæð með opnum spurningum s.s. "hvað er?", "hvernig?" og "af hverju?". Þau læra einnig að taka ekki allt sem gefið og æfast í að færa rök fyrir skoðunum sínum. Með þessu læra börnin meðal annars að bestu vinir geta haft ólíkar skoðanir. Starfsfólk leikskólanns hefur einning haft það að markmiði að gera betur í dag en í gær og vera vakandi fyrir þróun og nýjungum í leikskólastarfinu. Frá því að leikskólinn opnaði hefur ýmislegt breyst og þróast. Valið hefur breyst frá upphaflegu hugmyndafræðinni. Valsvæðin eru ávallt fleiri en börnin eru. Börnin geta nú valið það sem er laust og skipt þegar þeim hentar svo fremi að áhugaverða svæðið sé lekki upptekið/ fullt Valsvæðin eru mjög sýnileg börnunum og um leið sjá þau myndrænt hve margir geta verið á hvaða svæði. Er þetta hluti af stærðfræðikennslu sem unnið er í gegnum umhverfi barnanna og leikinn eins og í einingakubbunum. Könnunarleikurinn og könnunaraðferðin er einnig leið sem farin hefur veið í leikskólanum til að gefa börnunum frelsi til að nýta áhugasvið sitt og hugmyndaflug til rannsókna. Er hlutverk kennarans þarna að skapa umgjörn og lærdómsumhverfi sem hvetur barnið til að ransaka út frá eigin áhugasviði.